Ritstuldarvarnir - Turnitin

Ritstuldarvarnir – Turnitin

Allir háskólar á Íslandi hafa í samstarfi unnið að innleiðingu á Turnitin (http://www.turnitin.com) hugbúnaðinum sem hefur það meginmarkmið að koma í veg fyrir ritstuld. Í framhaldinu hefur Gæðaráð HA samþykkt að öll lokaverkefni í grunn- og framhaldsnámi verði keyrð í gegnum Turnitin með Moodle-kennslukerfinu þar sem nú er mögulegt að láta Turnitin skoða verkefni nemenda. Kennurum er einnig frjálst að nota Turnitin í öðrum verkefnum.

Hvað er Turnitin og hvernig vinnur það?

Turnitin er forrit til varnar ritstuldi og gerir kennurum kleift að bera saman innsent efni þ.á.m. ritgerðir nemenda, við lokaverkefni háskólastúdenta í Skemmu, rafræn gagnasöfn og efni á netinu. Nemendur setja sjálfir ritgerð inn í Turnitin í gegnum Moodle, einnig getur kennari gert það. Forritið býr síðan til skýrslu sem sýnir samsvaranir sem finnast milli ritgerðar og efnisins sem fyrir er í gagnasafninu. Þannig getur Turnitin komið í veg fyrir ritstuld og leitt til bættra vinnubragða við heimildanotkun og ritgerðasmíð.

Hvernig er Turnitin notað?

Háskólinn á Akureyri hefur valið að nota Turnitin í gegnum Moodle kennslukerfið. Kennari býr til „Turnitin Assignment“ í námskeiði í Moodle og þar skilar nemandi verkefninu inn. Kennari og nemandi geta báðir haft aðgang að samanburðarskýrslum ef svo ber undir. Ekki þarf að stofna námskeið eða nemendur sérstaklega í Turnitin.

Hvað verður um efni sem skoðað er í Turnitin?

Þegar kennari stillir skilakassa í Moodle er valið er um að setja ritgerðir í:

  • Aðalsafn (standard repository). Hægt eftir það að bera ritgerðir úr öðrum skólum saman við ritgerðirnar (ritgerð aðeins aðgengileg kennara viðkomandi námskeiðs, utanaðkomandi geta ekki skoðað texta ritgerða án leyfis). 
    Endanleg útgáfa af lokaverkefni í HA er sett í „standard repository“.
  • Ekkert safn (no repository). Ritgerð sem ekki fer í gagnasafn er ekki borin saman við ritgerðir sem skoðaðar eru seinna. Hér fara t.d. ófullgerð verkefni sem aðeins eru skoðuð til prófunar. Lokauppkast lokaverkefna í HA er sett í „no repository“.

Síðast breytt: Monday, 4. April 2016, 4:05 PM